Aftökur á Íslandi.

Böðullinn sem hjó Jón Arason biskup á Hólum og syni hans tvo, Ara lögmann og séra Björn á Melstað, 7. nóvember árið 1550, var íslenskur og hét Jón Ólafsson.

Norðlenskir hefndu þeirra feðga árið 1551. Í Setbergsannál segir:
Þegar þeir norðlenzku riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd fyrir þá feðga, fundu þeir böðulinn, sem þá feðga líflét í Skálholti og hét Jón Ólafsson. Hann tóku þeir á Álftanesi og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu síðan norður. (Ann. IV. 63)
Í annarri heimild er sagt að norðlenskir hafi hellt heitu biki, en ekki blýi, ofan í Jón böðul sem í sumum heimildum er nefndur „herfileg kind“ og „drengtötur.“
Oft urðu þeir menn böðlar sem gerst höfðu sekir um smáglæpi og ef til vill hefur það átt við um böðul biskupsins á Hólum. Í Setbergsannál segir frá Guðlaugi sem hafði stolið úr búðum danskra árið 1640. „Þar eftir fékk hann eða var tekinn fyrir böðul.“ (Ann.IV.89) Og í Eyrarannál er þess getið að árið 1671 hafi strákur verið strýktur í Skagafjarðarsýslu fyrir þjófnað. Hann fékk „60 högg og lofaði að verða böðull.“ (Ann.III.298)

Fyrr á öldum var var hálshöggning algeng refsing á Íslandi fyrir stórglæpi eins og morð og dulsmál, þar sem fæðingu barns var leynt og það síðan deytt. Þessari refsingu var þó nær eingöngu beitt gegn karlmönnum en konum var drekkt fyrir dulsmál. Sakamenn voru hálshöggnir með handöxi og höfuð þeirra stundum sett á stengur öðrum til viðvörunar.

Dæmi eru um það að fyrir aftökur hafi hinir dæmdu verið handhöggnir, þeir klipnir með glóandi töngum eða limamarðir. Fjöldamorðinginn Axlar-Björn sem tekinn var af lífi árið 1596 fékk hrottalega meðferð. Hann var „limamarinn með sleggju, sundur stykkjaður og síðan afhöfðaður og festur upp á stengur.“ (Ann.IV.74)

Svo virðist sem böðlar á Íslandi hafi ekki alltaf verið stétt sinni til sóma. Í Skarðsárannál segir frá aftöku Björns Þorleifssonar árið 1602:
Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. (Ann.I.187)

Eftir aftöku Björns voru yfirvöld áminnt um að hafa örugga menn í böðulsstarfi svo að landið yrði ekki að spotti.

Já svona var þetta og er hryllilegt að hugsa til þess kvað menn kvöldust áður en þeir létu lífið.

                                                                        Jobbi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Já við erum með öruggann böðul núna....Geir H Haarde.......

Gulli litli, 10.11.2007 kl. 16:26

2 Smámynd: Púkinn

Tja, ef menn vilja sjá fagmannlegar aftökur. þá er þeim sjónvarpað vikulega í Sádi-arabíska sjónvarpinu og þeir sem hafa gerfihnattadiska sem hægt er að snúa geta vandræðalítið náð þeim útsendingum.

Hvort einhver hefur áhuga á því er hins vegar annað mál.

Púkinn, 10.11.2007 kl. 16:49

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Mér þykir þú fróður,frændi sæll,góður pistill hjá þér.Kveðja.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 10.11.2007 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

jósep sigurðsson
jósep sigurðsson
Hef áhuga svona almennt á lífinu og tilveruni.Áskil mér þann rétt að hafa skoðanir á málefnum og þjóðmálum án þinnar íhlutunar en þér er frjálst að gefa coment án skítkastsjobbisig@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1464

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

ApologetiX - Love The Jews (Love Me Do / Beatles)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband