Sami grauturinn í sömu skálinni.

Þetta er mikið notað orðatiltæki er fólk sýnir vantrú á einhverju,og ekki sýst er pólitík á í hlut. Rakst á þessa skemmtilegu sögu af Atla Graut sem er einn af forfeðrum Austfirðinga.

Frá Atla graut, eða Graut-Atla eins og hann er oftast kallaður, er sagt í Landnámabók. Þar kemur fram að bræðurnir Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, hafi farið úr Veradal í Noregi til Íslands og numið land í Fljótsdal. „Graut-Atli nam ina eystri strönd Lagarfljóts allt á milli Giljár og Vallaness fyrir vestan Öxnalæk.“

Í Landnámu eru þeir bræður taldir meðal stærstu eða göfugustu landnámsmanna í Austfirðingafjórðungi. Giskað hefur verið á að með upptalningu göfugustu landnámsmanna sé átt við að þeir hafi verið forfeður goðorðsmannaætta Íslendinga. Þó er ekki hægt að rekja ættir goðorðsmanna í karllegg til Atla heldur til Ketils bróður hans. Karlleggur skiptir hér meira máli en kvenleggur vegna þess að karlar einir gátu orðið goðar.

Þá er Atli grautur nefndur í upphafi Droplaugarsona sögu, og segir þar að bræðurnir hafi fyrst átt bú saman á Húsastöðum í Skriðdal. Síðan hafi þeir selt það og keypt land í Fljótsdal, Atli „fyrir austan fljótið upp frá Hallormsstöðum, er nú heitir í Atlavík, og bjó þar til elli. En nú eru þar sauðhúsatóftir.“ Í Þorsteins sögu hvíta kemur líka fram að Atli hafi búið í Atlavík og þar sögð vera sauðhús.

Til er afar rækileg könnun hjónanna Haraldar Matthíassonar og Kristínar Ólafsdóttur á því hvernig frásagnir af landnámsmönnum koma heim við staðhætti. Haraldur segir að frásögnin af landnámi Atla sé nákvæm og örnefnin Gilsá, Vallanes og Uxalækur* enn alþekkt. Í Atlavík segir Haraldur vera allmiklar rústir.
Meðal fræðimanna er mikill ágreiningur um hvort þessar frásagnir sanni að menn eins og Atli hafi verið til í raun og veru. Þórhallur Vilmundarson prófessor emeritus hefur sett fram svokallaða náttúrunafnakenningu, að nöfn landnámsmanna séu iðulega búin til eftir örnefnum, gagnstætt því sem haldið er fram í Landnámu. Samkvæmt því ætti nafn Atla að vera dregið af örnefninu Atlavík, hvernig sem það kann að vera til komið. Á hinn bóginn er engan veginn útilokað að sagnir af landnámsmanninum Atla hafi varðveist uns þær voru skrifaðar niður í upphaflegri gerð Landnámu, um tveimur öldum eftir daga hans.

Í fornsögum eru raktar ættir frá Atla til mikils háttar manna. Sonur Atla hét Þórir, dóttir Þóris Ásvör, móðir Brodd-Helga á Hofi í Vopnafirði. Sonur Helga var Bjarni, faðir Yngvildar sem var móðir Guðríðar, móður Jóreiðar, móður Ara fróða. Miklar líkur eru á að Ari hafi komið að því verki að safna um landnámsmenn sögnum sem urðu síðar að þeirri Landnámabók sem við eigum varðveitta. Að minnsta kosti var örugglega byrjað á því verki á ævidögum Ara. Við getum því sagt að höfundar Frum-Landnámu hafi verið í áttunda ættlið frá Graut-Atla.

Engar sögur fara af því hvers vegna Atli var kenndur við graut. En víða kemur fram í sögum að ekki þurfti alltaf mikið tilefni til að menn fengju viðurnefni. Lesendur geta sjálfir spreytt sig á að geta sér til um ástæðu þess að Atli fékk viðurnefni sitt.

                                                               Jobbi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

jósep sigurðsson
jósep sigurðsson
Hef áhuga svona almennt á lífinu og tilveruni.Áskil mér þann rétt að hafa skoðanir á málefnum og þjóðmálum án þinnar íhlutunar en þér er frjálst að gefa coment án skítkastsjobbisig@gmail.com
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 1873

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

ApologetiX - Love The Jews (Love Me Do / Beatles)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband