16.10.2007 | 10:47
Svar við gátu Svartskeggs.
Gullið er grafið 6 metra í jörðu.
Þegar Svartskeggur lauk við að grafa holuna fyrir fjársjóðinn stóð hann uppréttur með höfuðið tvisvar sinnum hæð sína undir yfirborðinu. Höfuð hans var því 4 metrum undir yfirborðinu. Fjársjóðurinn lá hins vegar við fætur hans á botni holunnar eða 6 metrum undir yfirborðinu, það er 2 metrum neðar en höfuðið.
Já svo mörg voru þau orð,en þetta er gott fyrir heilann svona hugarleikfimi. Því það er staðreynd að við notum að öllu jöfnu ekki nema 15-20% af heilanum og sumir minna eða ekki neitt.
Drottinn blessi.
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2007 | 23:06
Hversu djúpt í jörðu þarf ungi sæfarinn að grafa til að finna fjársjóðinn?
Ungur sæfari var svo lánsamur að komast yfir fjársjóðskort Svartskeggs. Eftir miklar hrakfarir fann hann loks eyjuna þar sem fjársjóðurinn var grafinn í skjóli stórs pálmatrés. Á trjábolinn var eftirfarandi rist:
Standir þú við trjábol þennan hefur þú fundið fjársjóðskort mitt. Gullið gróf ég beint undir fótum þínum djúpt í jörðu, eða þar til höfuð mitt var tvisvar sinnum hæð mína undir yfirborðinu.
Svarið finnur þú hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2007 | 04:23
Framsókn til sölu.
Enn og aftur sýnir Framsókn sitt rétta andlit. Flokkur sem er að hverfa en þyrstir í völd fram í andlátið. Þetta kom í sjálfu sér ekki á óvart, eftir myndun síðustu ríkisstjórnar hófust árásir B manna á Sjálfstæðisflokkinn og hvað allt gott sem skeði í því hjónabandi væri B að þakka. Samfylkingin er svo sem ekki alveg saklaus,því Dagur hefur gengið með borgarstjórann í maganum lengi. Hvað heyrðist! búið að endurheimta Orkuveituna úr klóm Sjálfstæðismanna,bíddu var það ekki Alfreð Þorsteinsson sem var með Orkuveituna á sínu valdi í 12 ár í stjórnartíð R listans? Kom þeim í rækjuna og ekki má gleyma línframleiðslunni í Þorlákshöfn sem komin er í þrot,þar setti Freddi 600 millur í. Svo mætti lengi telja upp frægðarverk hans ó Ingibjargar sem nú fer með utanríkismálin og í skjóli Sjálfstæðismanna. Ég samhryggist rétt hugsandi Reykvíkingum núna og þá ekki sýst barnafólki,eða er fólk búið að gleyma viðskilnaði R listans í fjölskyldumálum.
Drottinn blessi
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 22:11
Tórinó líkklæðið.
Enginn af helgum dómum kirkjunnar hefur verið rannsakaður jafn gaumgæfilega af vísindamönnum og sá sem kallaður hefur verið Tórínó-líkklæðið.
Þessa línstranga, sem er 4,36 m langur og 1,10 m breiður, er fyrst getið í heimildum, að öruggt sé, upp úr miðri 14. öld. Eigandi hans þá var Geoffroi de Charnay aðalsmaður, kenndur við smábæinn Lirey í Norður-Frakklandi. Á þeim tíma var haft fyrir satt að þetta væri líkklæði meistarans frá Betlehem og Nasaret. Áttu menn að hafa vafið því utan um jarðneskar leifar Krists, þegar hann var tekinn niður af krossinum á Hausaskeljastað en á umræddu klæðisplaggi sjást óljósar útlínur blóðugs manns.
Hið meinta líkklæði varð fljótlega miðdepill athygli pílagríma og annarra sem komu víðsvegar að til að berja það augum. Biskupinn í Troyes, Henri de Poitiers, bannaði þó fljótlega sýningu þess. Rúmlega 30 árum síðar var það tekið fram á ný, en í kjölfarið (1389) lýsti eftirmaður de Poitiers, Pierre D'Arcis, því yfir í bréfi til andpáfans í Avignon, að forveri sinn hafi talið þetta vera fölsun, og á sökudólgurinn að hafa játað verknaðinn, enda líka hvergi minnst á slíkan grip í heilagri ritningu. Klemens VII tók samt þann kostinn að leyfa sýningu þess, en bað fólk að muna að það einungis stæði fyrir eða væri tákn hins eina sanna klæðis. Þeir sem á eftir honum komu töldu þetta hins vegar ósvikið.
Árið 1418 flutti Humbert greifi af Villersexel, sem kvæntur var afabarni Geoffroi de Charnay, línstrangann í kastala sinn í Montfort í Frakklandi til að bjarga honum undan ræningjaflokkum. Síðar var klæðið flutt til Saint-Hippolyte-sur-Doubs. Eftir dauða Humberts ferðaðist ekkja hans með það til sýningar, meðal annars í Liege og Genf. En árið 1453 lét hún að endingu strangann fyrir kastala í Varambon í Frakklandi. Nýi eigandinn var Louis frá Savoy og var efnið nú varðveitt í Chambery. Árið 1471 var það flutt á milli hinna ýmsu borga í Evrópu og af samtímalýsingum að dæma er greinilegt að þar var mikill dýrgripur talinn á ferð, enda þá geymt í silkivöfðu helgiskríni.
Árið 1532 skemmdist klæðið af eldi, meðal annars við að bráðið silfur lak á það, og sumir telja af vatni einnig. Nokkru síðar eða árið 1578 er það komið í dómkirkjuna í Tórínó á Ítalíu og á þar dvalarstað og heimkynni upp frá því. Árið 1983 er það gefið páfastóli, en breytir þó ekki um íverustað.
Þegar Secondo Pia tók ljósmynd af klæðinu árið 1898, en slíkt hafði aldrei verið gert áður, urðu menn forviða því negatífan sýndi ýmislegt mun betur en hin venjulega prentmynd, meðal annars sár á enni, líkt og eftir þyrnikórónu, sem og göt milli alnar og spíru, eins og för eftir nagla.
Andstæðingar þeirrar hugmyndar að Tórínó-klæðið megi rekja til Jesú Krists benda helst á frásögn Jóhannesarguðspjalls, 20. kafla. Þar segir að Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, og Pétur hafi komið að gröfinni, sá fyrr nefndi á undan, og hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. Hér er með öðrum orðum um tvo hluti að ræða, en ekki einn.
Í Oviedo á Spáni er reyndar varðveittur andlitsdúkur, 84 x 53 cm að stærð, ævaforn og blóðugur, ekkert merkilegur þó á að líta í fljótu bragði, en hefur einhverra hluta vegna þótt sérstakur og þess virði að geyma í traustri hirslu, og frjókorn í honum benda til Palestínu. Nýleg rannsókn vísindamanna gefur til kynna að klútur þessi sé í órjúfanlegum tengslum við áðurnefnt Tórínó-líkklæði, hafi verið í snertingu við sama einstakling.
Ef hratt er farið yfir sögu benti kolefnistrefjarannsókn, sem gerð var á Tórínó-klæðinu árið 1979 og síðan aftur 1988, þó til þess að um svik væri að ræða. Vísindamenn frá þremur háskólum komust að þeirri niðurstöðu að það væri frá árabilinu 1260-1390.
Eldsvoði ógnaði líndúknum á ný árið 1997, en þó tókst að bjarga málum fyrir horn. Árið 2002 lét páfastóll gera við plaggið og með því gafst tækifæri að mynda það að innanverðu í fyrsta sinn og taka ný efnissýnishorn. Kom í ljós að klæðið er mun eldra en fyrri rannsóknir höfðu bent til, eða 1300-3000 ára gamalt. Mun sýni úr fyrri rannsóknum hafa verið tekið úr bót, sem ofin var inn í klæðið á miðöldum, eftir brunann sem áður er minnst á.
Annað sem alltaf var talið styðja að þetta væri líkklæði Krists var að í því er að finna ákveðin frjókorn sem ættuð eru frá Austurlöndum nær líkt og í Oviedo-sveitadúknum, en eru ekki til í Evrópu.
Sumir vilja meina að minnst sé á tilurð þessa klæðis löngu fyrir miðja 14. öld, því í helgisögu einni sem Evsebíus frá Sesareu (um 260um 341) minnist á og trúir, er sagt, að Jesús hafi skilið eftir andlitsmynd sína á líndúk sem hafi síðan komist í eigu Abgars konungs í Edessa (þar sem borgin Urfa í Tyrklandi stendur nú). Hvað sem öllum helgisögum líður þá er vitað að á 6. öld fannst klæði falið í borgarvegg Edessa með mynd sem þá var talin vera andlitsmynd Jesú. Á 10. öld barst þessi dúkur til Konstantínópel en ekki er vitað um afdrif hans eftir árið 1204 þegar krossfarar fóru með ránum um borgina. Hafa sumir haldið því fram að þetta sé Tórínó-líkklæðið en það er umdeilt.
Að lokum má geta þess, að Einar Jónsson myndhöggvari notaði andlitsfall Tórínó-líkklæðisins og naglaför þegar hann bjó til Kristsstyttuna árið 1946, sem hann gaf Hallgrímskirkju í Reykjavík og er þar enn.
Margar síður á veraldarvefnum eru helgaðar umfjöllun um líkklæðið frá Tórínó og má til dæmis finna þær með því að slá inn Shroud of Turin í leitarvélar.
Drottinn blessi.
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 21:58
Er Guð til?
Já segi ég,en þetta er samt flókin spurning. Hvað segja þá vísindin um þessa spurningu? "Ekkert!" myndu allmargir vísindamenn svara. Margir þeirra telja nefnilega að spurningar um guð séu í eðli sínu fyrir utan verksvið vísinda; vísindin fjalla um það sem er náttúrulegt, það sem er hlutlægt og hægt er að kanna og mæla. Guði er aftur á móti oft lýst sem einhverju yfirnáttúrulegu, sem lýtur engum lögmálum, sem er huglægt og ekki er hægt að bregða neinni mælistiku á. Því myndu margir segja að "vegir guðs væru órannsakanlegir". Því ættu vegir Guðs að vera órannsakanlegir? Setti hann það ekki á okkur að rannsaka sig og sinn vilja?
Ekki eru þó allir á sama máli um þetta. Vithönnunarsinnar hafa til að mynda reynt að leita staðfestingar á íhlutun guðs með aðferðum sem þeir telja vísindalegar en flestir aðrir innan fræðasamfélagsins telja til gervivísinda eða hjáfræða. Nánar má lesa um þetta í svari Steindórs J. Erlingssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Geta vísindamenn útilokað vithönnun (intelligent design) sem upphaf lífsins?
Enn aðrir telja að vísindin hafi einmitt sýnt fram á að guð sé ekki til; tilvist hans sé í andstöðu við það sem vitað er um heiminn. Að lokum eru þeir sem segja að trú þurfi engra vísindalegra sannana við. Orðið trú þýðir í raun traust eða sannfæring, sem felur í sér að þeir sem trúa treysti því að þeirra guð eða guðir séu til, óháð því hvað vísindin segja.
Drottinn blessi
Jobbi
Fyrst engin eining ríkir um svarið við spurningunni "Er guð til?", er þá allt eins gott að gefast bara upp á henni og sætta sig við að maður muni aldrei vita svarið? Höfundur telur að svo sé ekki endilega heldur hvetur miklu fremur alla sem þetta lesa til að reyna að svara spurningunni hver fyrir sig. Sé fólk í vafa er gott að taka upplýsta afstöðu með því að kynna sér sem flest sjónarmið og rök með og á móti tilvist guðs. Góður staður til að hefja leitina er einmitt Vísindavefurinn!
Frekara lesefni:
Tilvist Guðs
- Er hægt að sanna að guð sé til? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Er hægt að sanna það sagnfræðilega að Jesús Kristur hafi verið til? eftir Sverri Jakobsson.
- Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks? eftir Róbert Haraldsson.
- Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til? eftir Hjalta Hugason.
- Hver fann upp Jesú? eftir Einar Sigurbjörnsson.
- Hver fann upp Jesú? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Hvernig er sönnun Pascals á því að betra sé að trúa á Guð? eftir Atla Harðarson.
- Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei? eftir Róbert Haraldsson.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 20:52
Hvað eru englar?
Englar eru sagðir ósýnilegar himneskar verur, þjónar Guðs sem vinna í hans nafni. Þeir voru skapaðir af honum í upphafi og eru búnir skynsemi og frelsi. Lífssvið þeirra er eilífðin sjálf, ekki tíminn. Þeir vegsama Guð og vernda menn og dýr.
Stéttir engla eða gerðir eru margs konar. Í síðgyðingdóminum var farið að tala um níu flokka engla sem var skipað í virðingarröð sem oftast var þessi: Efstir voru serafar, þá kerúbar, síðan hásæti eða trónar, og eftir það herradómar, dyggðir, tignir, máttarvöld, erkienglar og loks englar. Kristnin erfði þessa röðun, en hún var komin í núverandi form á 5. eða 6. öld.
Serafar eru næstir hásæti Guðs og lofa hann þar og tigna, syngjandi dýrðaróð kærleikans. Í spádómsbók Jesaja (6: 1-4) er þeim lýst svo:
Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð. Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.
Sáttmálsörkin hefur að geyma steintöflurnar með boðorðunum tíu.
Kerúbar standa vörð um hásætið og einnig lífsins tré í Paradís. Óður þeirra er viska og speki. Þeir hafa tvo, fjóra eða sex vængi, stundum þakta augum. Gulldrifnar myndir þeirra skreyttu náðarstólinn í musterinu helga, hið allra helgasta, sáttmálsörkina (kistuna þar sem boðorðatöflurnar voru geymdar) og einnig fortjald þess (Síðari Kroníkubók 3: 14). Hjá spámanninum Esekíel (1: 4-28) er að finna stórbrotnar lýsingar á kerúbum.
Hásæti eða trónar (eða stólar eins og þeir eru nefndir í Íslensku hómilíubókinni frá því um 1200) standa umhverfis hásæti Drottins. Þeir eru herskarar engla sem gjarnan er lýst sem vængjuðum hjólum (Esekíel 1: 16-17). Ef þeir eru sýndir í mannsmynd eru þeir hafðir í bænastellingu og með ríkisepli og veldissprota eins og konungar. Þeir eru í hvítum kyrtlum og með græna stólu og oft með gylltan linda um sig miðja. Vængir þeirra eru oft sýndir alþaktir augum.
Herradómar voru álitnir farvegur guðlegrar miskunnar, en dyggðir þeirra tengjast oft hetjum trúarinnar og öðrum sem áttu í hinni góðu baráttu í þágu Guðs.
Tignirnar eru í framvarðasveit ljóssins gegn myrkrinu. Hlutverk þeirra er að vinna kraftaverk á jörðu og einkenni þeirra er stafur með ríkisepli á endanum.
Máttarvöld ríkja yfir jörð, vatni, lofti og eldi. Þau eru verndarar þjóðanna og eiga að halda illum öflum í skefjum.
Erkienglar eru gjarnan sagðir fjórir: Gabríel, Mikael, Rafael og Úríel. Gabríel er oft talinn þeirra æðstur, en hann er boðberi Guðs. Einkennistákn Gabríels er lilja eða stafur með krossi. Hann er oft sýndur vængjalaus. Mikael er löggjafinn, vörn sálanna, og fer fremstur í orrustunni gegn hinu illa. Rafael er það hlutverk falið að lina þrautir mannanna. Hann er ýmist sýndur með göngustaf í hendi eða fisk. Úríel er engill ljóssins og ræður yfir dánarheimum. Í sumum ritum er hann nefndur Phanúel, andlit Guðs. Rabbíar Gyðinga bættu þremur við í erkienglahópinn: Ragúel, Sareil eða Sarakael og Remíel.
Til neðstu stéttarinnar, engla, tilheyra svo aðrar ljósverur himinsins. Þeir eru ósýnilegir verndarar á hinum ýmsu stundum. Elstu engilsmynd kristninnar gefur að líta í katakombunum í Róm frá 2. öld, en hún sýnir boðun Maríu.
Í Biblíunni koma englarnir fram í mannsmynd, yfirleitt vængjalausir, nema æðstu stéttirnar tvær. Það er ekki fyrr en á 4. öld að farið er að sýna aðrar stéttir engla vængjaða á myndum. Á 15. öld verða englar kvenlegri ásýndum og jafnvel sýndir sem börn. Á endurreisnartímanum koma svo fyrst fram englamyndir sem eru ekkert nema barnshöfuð með vængi.
Drottinn blessiJobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 20:37
Frímúrarar nútímans
Refill sem sýnir Musterisriddara.
Þetta varð upphaf kristinnar riddarareglu er fékk nafnið Musterisriddararnir af því að þeir settust að innan marka Jerúsalemsborgar þar sem musteri Salómons hafði staðið forðum. Kjörorð Musterisriddaranna var síðar alkunnugt og sungið af kristnum mönnum víða um Vesturlönd: Non nobis, sed nomini Domini gloria eða ekki okkur, heldur nafni Drottins sé dýrðin.
Þjóðhöfðingjar og aðrir velunnarar auðguðu regluna með stórgjöfum. Með tímanum urðu Musterisriddararnir 20.000 að tölu og þekktir fyrir kjark sinn og kærleiksþjónustu. Smám saman varð reglan stórauðug og komst yfir jarðeignir víðs vegar um Vesturlönd, einkum þó í Frakklandi þar sem hún átti meira en 10.000 herragarða. Þegar fram liðu stundir ráku Musterisriddararnir verslun með vörur frá Austurlöndum og fluttu pílagríma sjóleiðis austur yfir hafið. Þeir ráku líka bankaþjónustu og hverskonar önnur viðskipti.
Öfundlaust varð veldi Musterisriddaranna ekki, eins og síðar átti eftir að koma fram. Með falli Landsins helga í hendur múslíma árið 1291 var tilverurétti Musterisriddaranna stefnt í tvísýnu og þessi tilvistarkreppa varð reglunni að falli. Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur, sem kallaður var hinn fríði, blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru þeir ákærðir fyrir hvers konar upplognar sakir. Með þeim ósköpum hófst harmsaga sem engir síðari tíma sagnfræðingar hafa getað skýrt á annan veg en þann, að undirrótin hafi verið fégræðgi og valdafíkn páfans og Frakkakonungs, sem báðir girntust hinn mikla auð Musterisriddaranna og vildu hnekkja veldi þeirra.
Musterisriddarar brenndir á báli. Mynd úr handriti frá 15. öld.
Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum, þeir bornir ýmsum sökum og pyntaðir til játninga. Eftir sýndarréttarhöld og miklar pyntingar voru þeir brenndir í þúsunda tali um alla Evrópu, meðal annars síðasti stórmeistari reglunnar Jacques de Molay. Árið 1312 bannaði páfinn Musterisregluna. Leið regla þeirra undir lok að svo búnu.
Eða svo skyldu menn ætla. Ýmsir halda því þó fram að allstór hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu og yfir til Bretlandseyja. Er sú saga rakin í bók höfundar Ragnarök og tilgreindar þær heimildir sem að baki liggja.
Samkvæmt þeim eiga Musterisriddarar að hafa fengið hæli hjá Robert Bruce, konungi Skotlands, sem um þær mundir átti í miklum útistöðum við Englendinga. Í Skotlandi hafi þeir síðan starfað um aldir samkvæmt þessari kenningu. Árið 1314 háði Bruce mikla orrustu við Englendinga við Bannocburne og fór með sigur af hólmi með hjálp Musterisriddara. Í þakklætisskyni við þá á Bruce að hafa stofnað leynireglu fyrir Musterisriddara þannig að þeir gætu starfað áfram í skjóli. Varð sú leyniregla síðan grunnurinn að Frímúrarahreyfingunni. Fyrsta regla hinna nýju Musterisriddara, sem þannig varð fyrsta regla Frímúrara var því sett á laggirnar í Skotlandi undir Robert Bruce árið 1314 og hét Kilwinning.
Samkvæmt sömu frásögn fengu Musterisriddarar einnig skjól og vernd í Portúgal. Að vísu var hreyfing þeirra leyst upp árið 1312. En aðeins sex árum síðar gekk hún í endurnýjun lífdaga undir heitinu Riddarar Jesú Krists, eða einfaldleg Regla Jesú Krists. Veitti nýr páfi, Jóhannes XXII, reglunni viðurkenningu árið 1319. Þannig lifðu Musterisriddarar af í leynum allt til tuttugustu aldar.
Heimildir:
- Armstrong, Karen: A History of God, New York 1994.
- Armstrong, Karen: The Battle for God, New York 2000.
- Chadwick, Henry: The early Church, USA 1978.
- Einar Sigurbjörnsson: Credo - Kristin trúfræði, H.Í. 1989.
- Frímúrarareglan á Íslandi, 50 ára, Oddi 2001.
- Grimbergs verdenshistorie - bind 6, korstog, kejser og pave, Dk 1960.
- Hancock, Graham: The Sign and the Seal, USA 1992.
- Kung, Hans: The Catholic Church - a short history, USA 2001.
- Oldenbourg, Zoé: The Crusades, GB 1966.
- Southern, R.W: Western Society and the Church in the Middle Ages, Penguin 1979.
- Ullmann, Walter: Medieval Political Thought, London 1975.
- Þórhallur Heimisson: Ragnarök - 10 örlagaríkustu orustur Vesturlanda, Hólar 2005.
Myndir:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 14:53
Hver er þinn Guð?
Þetta er erfið spurning og vandsvarað. Það sést sennilega best á lífsstíl fólks hver er þeirra Guð. Ekki endilega á eignastöðu því ekki vill Guð fátækt,heldur líf í fullri gnægð. En við eigum þá líka að gefa frá okkur til hinna efnaminni og með því leggjum við inn í Guðsríkið og aukum uppskeru okkar. Palli í næsta húsi á gamla ódýra bíldruslu,hann leigir,er í vinnu og er frelsaður en alltaf blankur,af hverju? Jú hann talar ekki við hvern sem er,er afundinn,gefur ekki frá sér en er duglegur við að þiggja. Hann er fastur í öfund,afbrýðisemi og skilur ekki afhverju ekkert gengur hjá sér. Það er einfalt svar við því,maður gefur þó maður eigi lítið,maður tekur þátt í samfélaginu og gefur af sér kærleik. Guð er ekkert annað en kærleikur,ást og viska og hann segir,þú getur ekki þjónað 2 herrum hvað þá fleirum. Það er ekki hægt að halda og sleppa til skiptis,maður er eða er ekki ekki. Slúður slabb og kjaftagangur á mjög auðvelt með að rugla fólk í rýminu,vilt þú vera einn af þeim? eða einn af hinum staðföstu?
Drottinn blessi þig
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2007 | 16:43
Valur íslandsmeistarar
Til hamingju Valsmenn loksinns,en samt sem áður á þetta félag frækilegustu sögu hér í knattspyrnusöguni.
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2007 | 12:36
ÉG á mér draum.
Matt 19:19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
Sálm 55:23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
Sálm 30:6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
Drottinn blessi ykkur
Jobbi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 1557
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar