Bjössi.ekki svo vitlaus!

Björn Ingi Hrafnsson skrifar:

Það er ekki ofsagt að halda því fram að íslenska þjóðarskútan hafi tekið niður á ókunnu skeri af stærri gerðinni og sé þar pikkföst. Við erum sem þjóð stödd á strandstað og ekki er útlit fyrir háflóð alveg á næstunni.

Okkur er sagt að næst geti það hugsanlega komið eftir tíu daga, eða í þann mund sem stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur næst saman í Washington. Hvort sú hjálp reynist okkur nægileg verður tíminn einn að leiða í ljós, en margir telja þó að hjálp úr fleiri áttum verði einnig að koma til.

Hvernig gat þetta gerst? Von er að spurt sé. Svarið er heldur ekki augljóst. Jafn víst er að engum einum eða tveimur er hér um að kenna. Þótt það virðist ódýr skýring og langt í frá fullnægjandi, er engu að síður staðreynd að hér fer saman mikil óheppni, of mikið kapp, of lítil fyrirhyggja, töluverð vitleysa og of mikið stolt. Sem er slæmur kokteill, eins og komið hefur í ljós.

Við erum óheppnir, Íslendingar, að því leyti að fjármálakreppa er komin upp í heiminum af óþekktri stærðargráðu. Stærstu fjármálastofnanir veraldar róa lífróður og eigið fé margra þeirra er horfið. Víða er verkefni ríkisstjórna að dæla inn fjármagni í súrefnislaus hagkerfi og koma með nýtt fjármagn til að koma í veg fyrir gjaldþrot jafnvel sterkustu banka. Óheppni Íslands felst í því hversu framarlega það var í röðinni og hversu veikburða það reyndist þegar á hólminn var komið. Stjórnarherrarnir, bæði í forsætisráðuneytinu og Seðlabankanum, höfðu þvert á móti sagt okkur að eigin mynt væri okkar styrkleiki. Heyr á endemi. Íslenska krónan dró þjóðina með sér í fallinu og Seðlabankinn reyndist vanmáttugur lánveitandi til þrautavara þegar á reyndi.

Við vorum of kappsöm, fórum of geyst og súpum nú seyðið af því. Ekki bara útrásarvíkingarnir sem töldu sig hafa fundið vísdóminn eina í viðskiptum, heldur líka við hin sem fannst gaman í veislunni og gott að þurfa ekki lengur að eiga fyrir hlutunum. Met í fjölda flatskjáa á hvert heimili var ekki endilega það heimsmet sem að var stefnt.

Við sýndum ekki næga fyrirhyggju, þótt margir hafi sagt okkur að íslenska krónan myndi gefa eftir. Okkur var sagt: Íslensk króna þýðir að við þurfum ríflega þúsund milljarða í gjaldeyrisforða. Það var blásið út af borðinu og við vorum of stolt til að viðurkenna að krónan gengi ekki lengur. Og nógu vitlaus til að láta stundarhagsmuni einstakra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna koma framar þjóðarhag í þeim efnum.

Allt eru þetta mistök sem liggja fyrir. Þau verða ekki aftur tekin. Við berum hér öll sök, mismikla að vísu. Þeir sem gerðust brotlegir við lög, verða að svara til saka. Þeir sem brugðust okkur sem þjóð á ögurstundu verða líka að standa gjörðum sínum reikningsskil. Gleymum ekki að skipstjórinn er sjaldnast aðalmaðurinn á strandstað, né heldur flugstjórinn þegar hörð brotlending er niðurstaðan.

En við skuldum börnunum okkar að gefast ekki upp þótt á móti blási. Látum reynsluna frá því í október árið 2008 okkur að kenningu verða. Göngum hnarreist til framtíðar, vinnum saman að lausn mála með öðrum þjóðum og sleppum öllum hugmyndum um að íslensk þjóð sé öðrum fremri eða betri. En gleymum heldur ekki þeirri staðreynd, að það er margt í okkur spunnið sem einstaklingar og sem samfélag og að meginstyrkurinn felst í samstöðu á ögurstundu og samhug þegar á reynir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Flottur pistill hjá þér.

Höldum ótrauð áfram og berjumst eins og forfeður okkar og formæður gerðu.

Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?

Vertu Guði falinn.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.10.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

jósep sigurðsson
jósep sigurðsson
Hef áhuga svona almennt á lífinu og tilveruni.Áskil mér þann rétt að hafa skoðanir á málefnum og þjóðmálum án þinnar íhlutunar en þér er frjálst að gefa coment án skítkastsjobbisig@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 1190

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

ApologetiX - Love The Jews (Love Me Do / Beatles)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband